TRANSIT


Transit er ástand manns þegar hann er kominn á stað sem er ekki ákvörðunarstaður hans, þó þannig að hann hefur þegar yfirgefið brottfararstað sinn, og oft fyrir þó nokkru, og er enn að bíða þess að komast áfram á leið til ákvörðunarstaðar síns. Maðurinn hefur numið staðar, á einskonar ferðamótum þaðan sem margar leiðir eru færar, og bíður þess að komast í þá ferð sem hann ætlaði sér. Margar leiðir eru færar þaðan sem hann er staddur, en hann er ekki óráðinn í því hvert hann ætlar; þegar maðurinn er í transit-ástandi er ferðin þegar ákveðin frá upphafi til enda; það er bara spurning um bið eftir réttu farartæki.


Hvað gerist þá ef ástæðan fyrir því að maður er í transit er sú að enginn er ákvörðunarstaðurinn? Eða þá að ákvörðunarstaðurinn, sem haldið var upp með að fara til, er ekki lengur í boði, eða er ekki lengur til? Er hægt að vera í transit án fyrirframgefins ákvörðunarstaðar? Breyttist transitástandið við það að forsendur ferðarinnar eru ekki lengur þær sömu?


Í kenningum Spinoza er fjallað um ástand mannsins og hvernig möguleikarnir snúa við honum, einmitt þegar hann er staddur í einhversskonar biðstöðu. Spinoza velti því fyrir sér að samhengi orsaka og afleiðingar væri ekki endilega línulegt, eða að það væri að minnsta kosti hægt á hverjum tíma að hugsa sér margar mögulegar orsakir að sérhverri afleiðingu; á sama hátt gæti hver orsök leitt af sér margar mögulegar afleiðingar. Þetta er svipað og maðurinn okkar sem bíður í transit á flugvellinum; þar sem við fylgjumst með honum þá gæti okkur skilist að hann hefði verið að koma frá mörgum mögulegum brottfararstöðum; þar sem við fylgjumst með honum bíða þá gæti okkur einnig skilist að mögulegir ákvörðunarstaðir gætu verið fjölmargir. Spinoza gekk svo langt að túlka þetta út frá möguleikunum; að sérhverjum punkti lægju fjölmargir mögulegir heimar, og frá þeim einnig. Þeir heimar sem á undan gætu hafa farið væru því allir „sam-mögulegir“ (compossible) á sama hátt og þeir heimar sem á eftir gætu komið eru einnig sammögulegir. Síðan er það að það eru fjöldi möguleika sem ekki gætu hafa leitt til þess sem er, og einnig afar margir sem ekki gætu leitt af því sem er; þetta eru ómögulegir heimar.


Þegar þetta er skoðað frá þessu sjónarhorni blasa möguleikarnir við. Ef við lítum á þetta, á hinn bóginn, frá okkar eigin sjónarhorni, þar sem við eru að koma úr ferðalagi og að leggja upp í annað, þá ber annað við. Við vitum að við komum frá einum brottfararstað og að ákvörðunarstaðurinn er ákveðinn. Allir aðrir möguleikar verða við það ósammögulegir, og reyndar er það svo að frá sjónarmiði þess sem er í höfn að bíða, að þá liggur alltaf fyrir að allir mögulegir ákvörðunarheimar eru í raun ósammögulegir því um leið og einn er valinn verða hinir ekki lengur mögulegir heimar. En þegar maður lætur, á hinn bóginn, hugann reika opnast heimarnir á ný, og þeir heimar sem áður virtust ósammögulegir opnast á ný; verða sammögulegir.


Þegar maður er í transit, þá veltur það því á manni sjálfum hvort maður lætur ástandið taka yfir, horfir einbeittur fram á við, lætur sig ekki varða um annað en leiðina sem farin var og býr við þennan eina heim sem er mögulegur því aðrir eru ekki lengur sammögulegir; eða hvort maður lætur hugann reika um sjóndeildarhringinn og leyfir öllum sammögulegu heimunum að fylla hugann. Hvenær sem er, hvar sem er, þá getur maður kannski losnað úr transitástandinu.