
Karlotta
Blöndal
Úppúr
haganum
18
júlí - 16 ágúst
Viðtal við Karlottu Blöndal sem
skrifað er uppúr samtölum við
nokkra í Keflavík 17.-18. júlí.
SP: Sýning þín í Suðsuðvestur
er unnin beint uppúr tveim eldri verkum eftir
þig. Hversvegna valdir þú að
sýna þau aftur?
KB: Kveikjan að því að ég
var aðeins að spá í hversvegna
maður sem myndlistarmaður oftast býr
til glæný verk fyrir hverja sýningu
eins og í stöðugri leit að einhverskonar
framtíð eða framför. Eins finnst
mér áhugavert hversu óþægileg
fjölföldunin hefur þótt í
listum, að endurtekningin sé að einhverju
leyti til minnkunar eða rýri gildi verkanna
og gildi listmannsins. Til að mynda er fremur
sjaldgæft að performanslistamenn endurtaki
performansa sína. Mér fannst áhugvert
að skoða hvað gerist þegar maður
tekur orðna hluti og setur þá inn
í nýja tíma og nýjar aðstæður
nánast eins og að fjölrita. Eins og
að fjölrita þessa ljósmynd.
Dagsetningarnar aftan á plakatinu vísa
í sögu þessarar ljósmyndar
í mínum höndum, fyrsta dagsetningin
er sú dagsetning sem hún var tekin,
svo kemur dagsetning sýningar í París,
og svo loks dagsetning þessarrar sýningar
hér. Ljósmyndin sjálf er svo
til í oní skúffu hjá mér.
Þetta er kannski einskonar viðleitni til
að muna eftir og leita til þess sem maður
hefur í fórum sínum og vinna
uppúr því. Breyta og bæta
einhverju við, annast það sem til er
og beina því eitthvert. Titill sýningarinnar
vísar í þennan haga, einskonar
rökhaga, þaðan sem þetta allt
sprettur.
SP: En nú er þetta mynd af hóteli
í bruna, eyðileggingu.
KB: Já. Ég sé hótelið
í bruna sem einhverskonar tákn umbreytingar.
Hótel er líka tímabundinn staður,
staður sem fenginn er að láni og svo
yfirgefinn. Ég nota svo sjálft orðið,
varpa því upp á vegg staðarins
og þannig verður sýningarstaðurinn
þetta hótel í bruna. Orðið
hotel er líka orð sem all flestir í
heiminum skilja. Teikningarnar bakvið orðið
vísa svo í óræðinn
og jafnvel órökrænan heim handan
þess. Upphaflega vísuðu táknin
bakvið orðið í heim þeirrar
manneskju sem var á bakvið ljósmyndavélina,
ég vildi stilla upp hlutlæga gildi heimildaljósmyndarinnar
og tungumálsins við heim huglægra
tákna og persónunnar. Hér í
Suðsuðvestur er ég meira að spá
í hliðrunina og umbreytinguna sem gerist
við breytta tímasetningu og aðstæður.
SP: Sérðu þá verkið Reassessment,
viðarinnsetninguna, sem tengingu milli þessa
hótels og þess ferlis sem gerist eftir
eyðilegginuna eða umbreytinguna á einhvern
hátt?. Þetta eru spýtur sem átt
hefur að henda er það ekki?
KB: Jú, þetta er spýtnabrak sem
hefur átt að henda. Afgangar af einhverju
sem hefur verið búið til, sá
hluti sem ekki sést í hlutum. Þetta
er einskonar tilraun til að upphefja það
sem ekki hefur þótt nýtilegt en
samt verið til, en líka tilraun til að
færa efniviðinn nær uppruna sínum
með því að mála þær
í þessum gróðurlitum. En augljóslega
verður ekki aftur snúið en eftir stendur
þessi umönnun á efninu þó
hún sé kannski líka soldið
afkáraleg. Svo verður þessu kannski
bara öllu samt hent, ég veit það
ekki.
SP: Mér dettur líka í hug þessi
hnífur sem er teikning af hníf sem þú
bjóst til sjálf og var frá byrjun
ekkert ætlaður neinu listaverki í
sjálfu sér. Það er einhver
tenging þarna við þetta ferli að
gefa sér tíma eins og veggteikningin
ber með sér og máluðu spýturnar.
Að þótt málað verði
yfir veggteikninguna í lok sýningarinnar
og spýtunum hent að þá stendur
samt eftir þessi athöfn að gera eitthvað
í höndunum. Eins og að búa
til hníf til að skera tómata í
stað þess að fara út í
búð og kaupa hlutinn bara.
KB: Já, en svo finnst mér líka
eitthvað heillandi við myndlist sem birtist
og hverfur svo, eftir stendur tíminn sem fór
í að gera hlutina. Eins með plakatið,
það á eftir að dreifast um borg
og bý kannski, hverfa frá stað sínum.
Þetta er svona sumt af því sem
ég hef verið að hugsa í tengslum
við þessa sýningu. Kannski er það
samt bjarnargreiði að gefa upp þessar
tengingar, áhorfandinn er fullfær um
að sjá og skynja sjálfur, en stundum
er gaman að fá enn eina vídd í
málið.
SP: Það myndast við það enn
önnur samræða þó að
hún sé lesin.
KB: Já, mér finnst það skemmtilegt.
Yfirleitt hef ég verið að sýna
og vinna með öðrum listamönnum þar
sem myndast samræða á milli verkanna
sem unnin eru með tilliti til sýningarstaðarins
eða einhverjar ákveðnar hugmyndar.
Þannig höfum við myndað okkur okkar
eigin raunheim með skírskotanir í
hvort annað og umhverfið. Kannski eru þessi
tvö verk líka valin með þetta
að markmiði, að mynda samræðu,
eins og þetta viðtal.
Já og takk fyrir samtalið.
Takk sömuleiðis fyrir mig.




