Home

Ólöf Nordal (viðtal)

Á sýningunni "Féþúfur og lásagrös" er að finna safn fjögra blaða smára frá síðasta sumri og myndröð portrettljósmynda af fuglaþúfum. Ólöf Nordal stundaði nám við Myndlista- og handíðaskóla Íslands og lauk síðan mastersprófi frá Cranbrook Academy of Art, Michigan og MFA frá höggmyndadeild Yale Háskólans í New Haven, Bandaríkjunum. Verk Ólafar er að finna í öllum helstu listasöfnum landsins auk einkasafna í ýmsum löndum. Hún hefur hlotið ýmsa styrki og viðurkenningar fyrir list sína eins og úthlutun úr Listasjóði Dungal, Erró-styrkinn og viðurkenningu úr höggmyndasjóði Richard Serra.

Af einkasýningum má nefna sýningarnar Corpus dulcis (1998) og Íslenskt dýrasafn (2005) í Gallerí i8; Ropi (2001) í Nýlistasafninu og Hanaegg (2005) í Listasafni ASÍ.

Verk í almannarými má nefna Geirfugl (1997), sem stendur í Skerjafirðinum í Reykjavík, Vituð ér enn – eða hvað? (2002) í Alþingishúsinu og Bollasteinn (2005) á Seltjarnarnesi. Frá árinu 2007 eru verkin Bríetarbrekka, minnisvarði um Bríeti Bjarnhéðinsdóttur í Þingholtsstræti í Reykjavík og Fuglar himinsins, altarisverk í Ísafjarðarkirkju. Árið 2010 hélt Ólöf einkasýninguna Leiðsla í Hallgrímskirkju og sama ár var einkasýning hennar Fyrirmyndir í Listasafni ASÍ, sem var liður í Listahátíð í Reykjavík.

Ljósmyndir teknar af sýningunni; Helgi Hjaltalín