Birta

 

Stór hluti af myndlist Rögnu er bókverk sem spanna vítt svið bæði hvað varðar tækni og framsetningu. Ragna hefur notað bókina sem miðil frá upphafi myndlistarferils síns í  kringum 1980 og unnið m.a. með offset og silkiprent en seinustu ár hefur hún nýtt tölvuforrit og prentara í bókagerð. Í safni þeirra bóka sem Ragna hefur gert er að finna ljósmyndabækur, svarthvítar bækur og litskrúðugar, sögur ljóð og texta, en fyrst og fremst byggja  bækurnar á myndrænni  framsetningu.

Heimurinn sem birtist í bókum Rögnu er hugleiðslukenndur. Það er eins og sjónpunktur hennar standi utan við sjálft efnið og horfi inn á við en samtímis horfi hún út úr síðum bókanna. Síbreytilegur sjónpunkturinn  skapar hreyfingu og virkar þannig að við að skoða bækurnar missir maður áttir og dregst inn í þennan heim sem býr yfir óskilgreinanlegri  vídd. Þó að bakgrunnur og verk írönsku listakonunnar Shirazeh Houshiary sem býr og starfar í Bretlandi og var tilnefnd  til hinna virtu Turner Price myndlistarverðlauna árið 1994 sé ólíkur Rögnu, eiga tilvitnanir Houshiary í Sufisma sitthvað skylt við myndlist Rögnu.

 

Með aðferð sem krefst innri einbeitingar, afhjúpar Súfistinn þau  lög sem aðskilja hann frá guðdómleikanum og gerir þau sýnileg. Snúningur, hreyfing sveipuð helgi í Íslam er aðferð sem notuð er til þessarar nálgunar, því að ferlið að fjarlægjast heiminn hefst með áttamissi.

Texti úr sýningarskrá Houshiary frá 1995, (þýð. Didda Hjartardóttir)

 

Í bókum frá seinustu árum er myndefnið oft sýnt frá mörgum sjónarhornum, smá beygla hér, breytt líkamsstaða þar, stundum er myndin í meginatriðum sú sama en með blæbrigðamun skapast hreyfing. Ragna notar skæra liti tölvuprents og breytir stundum fókus  myndanna á þann hátt sem minnir á tíbrá, á meðan textinn sjálfur er afar skýr. Skoðandinn reynir sjálfkrafa að ná fókus á hverri blaðsíðu án árangurs og þessi ósjálfráða augnleikfimi eykur enn á þá tilfinningu að maður missi áttir.

Í verkum Rögnu gegna umbreytingar stóru hlutverki, í þeim er oft einskonar bið eða útungunartími. Hringrás náttúrunnar og eins hvað getur gerst þegar sú hringrás er rofin og ástand og skynjun mannsins er oft umfjöllunarefni í bókum seinustu ára. sbr. “Dauðinn í frumskóginum”, bók Rögnu frá árinu 2000 og í smásögunni  “Andlitslausi maðurinn” sem birtist í Mbl. 26. feb.2000 .

Hugmyndaflug Rögnu og framtíðarsýn sveiflast á milli martraðarkenndrar skuggaveraldar og draumkenndrar ofbirtu. Rétt eins og þegar skrímslið í manns mynd lýsir upplifun sinni eftir að Dr.Frankenstein hafði nýlokið við að tjasla því saman úr líkum og lífga það við.

Það er með talsverðum erfiðismunum að ég minnist uppruna tilveru minnar, allir atburðir þess tíma birtast, ruglingslegir og óskýrir. Undarlegur margfaldleiki skynjana greip mig, ég sá, fann, heyrði og þefaði samtímis og það var, einungis að löngum tíma liðnum sem ég lærði að greina á milli virkni mismunandi  skynfæra. Ég man að í stöðugt vaxandi mæli þrýsti skærari birta á taugar mínar, svo að ég óhjákvæmilega lokaði augunum. Myrkur færðist þá yfir mig og angraði mig en varla hafði sú skynjun orkað á mig, þegar við það að opna augu mín, eins og ég nú geri ráð fyrir, birtan helltist yfir mig á ný.

Texti úr bókinni “Frankenstein” 11 kafli,  Mary Shelley, (þýð. Didda Hjartardóttir)

 

Nýjustu myndverk Rögnu eru verk í vinnslu þar sem  listakonan er að fást við núningsþrykk (frottage). Ragna leggur þunn blöð yfir steina sem hún hefur safnað í gegnum tíðina og litar yfir með olíukrít, í gegn kemur áferðin og smám saman bætir Ragna nýjum lögum af lit og áferð á hverja mynd. Það er skemmtilegt að skoða hversu ólík vinnsla þessara nýjustu verka er frá tölvuunnum bókum Rögnu, úr því að nota tæknina sem millilið yfir í beina nálgun við efnið.

 

Tilraunastofan er opin og aldrei að vita hvað kemur næst út úr þokunni.

 

Didda Hjartardóttir Leaman